top of page

Páll Pálsson

326784435_670291548181638_9192700911251508070_n.jpg

Mynd úr einkasafni

Sagan mín ,
Páll Pálsson segir frá

Gosnóttin 23.janúar 1973.

Það fyrsta sem ég man eftir var að horfa út um gluggann á herbergi okkar Kalla, var að sjá rauðan bjarma og það voru miklar drunur, Kalli sagði eitthvað á það leið þetta er eins og þrumur og eldingar.

Þetta var sennilega milli kl. 3 og 4. Mamma og pabbi höfðu ákveðið að láta okkur yngri bræðurnar bara sofa ekkert verið að vekja okkur.

Muggur bróðir hafði vaknað fyrst og farið upp í svefnherbergi á Hólagötu 16 og vakið pabba með þeim orðum það er komið gos og pabbi svaraði ég skoða það betur á morgun, nei það er eldgos hérna á Heimaey og hrist pabba þannig að þau fóru á fætur og meðal annars hringdi pabbi í bræður sína Arnþór og Gísla sem tóku upp símtalið (var spilað seinna í eyjapistlum)

Það næsta sem ég man þegar við vorum komin á fætur var að við fórum í bíltúr til að skoða gosið. Í minningunni erum við bræðurnir Kalli, Rabbi ásamt mér aftur í Fordinum hans pabba og allt í einu er eitthvað að gerast, það hristist allt og Fordinn þýtur í loftköstum áfram. Jörðin var að rifna og upp kom eldspúandi gjall rétt við okkur.  

Sennilega höfum við farið of nálægt eldstöðvunum. Ég man líka eftir að vera keyra og í blandi við drunurnar frá eldstöðvunum voru baulandi belju hljóð, ég man ekki eftir að hafa séð beljurnar en sennilega er þetta þegar verið er að reka kýrnar frá Kirkjubæjum í Hraðið.

Við komum frekar seint niður á bryggju og núna man ég að amma Guðrún var með okkur.  

Það stóð til að fara í bát eins og allir aðrir. Ekki voru margir bátar eftir og ætluðum við um borð í einn þeirra VE-XXXXX en okkur tjáð að þessi bátur væri bara fyrir sig og sína.  Amma sagði þá þessa snildar settningu „mikið er það gott, þá getum við farið heim og fengið okkur almennilegt kaffi“  það var úr að við fórum til hennar á Heiðarveg 20 og man ég eftir að við fengum kex sem var í blikkdós og það var strásykur yfir kexkökunum, eins fékk ég mjólkurglas úr flottari glasinu en það voru til 2 tegundar af glösum og sú flottari var með þremur röndum efst í öðru hvoru bili hin ekki.

Það sem ég man næst var að við fórum uppá flugvöll, sennilega hefur Muggur bróðir látið okkur vita þar sem hann var að keyra fólki til og frá flugvellinum þar sem hann átti Rambler Ambassador Station.  Þar sem við vorum þarna í röðinni að fara uppí flugvélina þ.e. ég, Kalli, Rabbi, mamma, amma og Billý (hundurinn okkar) er sagt við okkur að það er ekki leyfilegt að hafa hund, þá svaraði mamma, annað hvort förum við öll eða engin.  Og auðvitað fórum við um borð við sátum saman ég og Rabbi í einu sæti og Kalli og mamma við hliðina á okkur og Billý á gólfinu. Það voru skrítin hljóð, blanda af flugvéla hljóði og drunum frá eldgosinu og síðan þessi grafar þögn hjá öllum. Ég held að öll sætin hafi verið nýtt í flugvélinni, meira að segja sætið á klósettinu. Rétt eftir að flugvélin tók á loft hristist hún mikið og eins og við værum að lenda í einhverju drungalegu skýi, vélin tók vinstir beygju og þegar ég leit niður, út um gluggann horfði ég beint í eldglóandi sprunguna, þetta var rosalegt ég man ekki eftir að hafa verið hræddur en samt eitthvað.

Ég spurði pabba seinna út í þetta sagði hann, að hann hefði fylgst með þegar flugvélin fór í loftið til austurs, með næstum því allri fjölskyldunni hans um borð. Á svipuðum tíma virðist sprunga í eldgosinum líklega opnast í sjó því mikill mökkur hefði myndast og hann hefði horft á flugvélina hverfa inní mökkinn, hann sagði líka að það hefði verið mikill léttir þegar flugvélin hefði komið út úr mekkinum.

Við vorum svo heppin að við fengum að vera hjá systur mömmu Fjólu og manninum hennar Gunnlaugi í Skeiðarvoginum. Ég fór í Vogaskóla, það eru ekki miklar minningar þaðan þó man ég eftir að Eiður Arnarsson jafnaldri minn var þarna líka. Seinna fórum við í Kópavoginn á Skjólbrautina íbúð sem var tengd Línu systur mömmu og Snorra manninum hennar.

Þegar við komum til baka til eyja, var gosið en í gangi og aska umlukti öll húsin, nema Hólagötu 16. Pabbi hafði hreinsað í kringum húsið okkar. Fyrstu vikurnar voru ekki margir krakkar á ferð en það verður að segja að það var mikill léttir þegar vinirnir fóru að koma til baka og lífið fór að fara í eðlilegra horf. Síðan gerðist það að krökkum frá eyjum var boðið til Noregs.

 Ég fékk ekki að fara þar sem ég er fæddur árið 1966, þau sem voru fædd 1965 og fyrr fengu að fara. Mér fannst það virkilega ósanngjarnt. Í langan tíma var alltaf verið að tala um þessa ferð og fannst mér ég vera skilin útutan. Auðvitað þegar þetta skoðað í dag þá er ég viss um að skipulagið væri með allt öðru sniði. Auðvitað var ég alltof ungur til að fara í svona ferð og sjálfsagt margir aðrir sem fengu að fara.

Þegar gosið byrjaði var ég 6 ára, varð síðan 7 ára í gosinu (25.feb) og gerði mér enga grein fyrir þessum atburðum og því mjög heppin, miðað við marga aðra sem eru með allt aðrar upplifun en ég. Ég hugsa oft um þessa tíma og verð að segja að ég hafi verið þeirra gæfu að njótandi að foreldrar mínir yfirfærðu ekki áhyggjur sínar yfir á mig.

Gerum þetta saman

Ef þið hafið einhverjar upplýsingar eða leiðréttingar á síðunni endilega sendið okkur skilaboð ;)

Tel: 123-456-7890

  • Facebook
  • Twitter
  • LinkedIn
  • Instagram
bottom of page