top of page
Capture.JPG

Rhian Hedd Meara

Rhian hefur heimsótt Heimaey reglulega síðan 2022 til að rannsaka Eldfellsgosið og áhrif þess á Vestmannaeyinga. Árið 2023 hóf Rhian samstarf með Manon Steffan Ros og saman þróuðu þær tvær smásögur byggðar á rannsókninni. Sögurnar voru kynntar á National Eisteddfod of Wales, árlegri hátíð sem fagnar velsku tungunni og menningu. Samstarfið gekk frábærlega og því sóttum þær um styrk til að halda áfram.

Með styrknum gat Rhian framkvæmt frekari vettvangsrannsóknir á Heimaey og Manon skrifað tvær nýjar sögur. Manon samdi upprunalegu sögurnar á velsku og þýddi þær síðan yfir á ensku. Allar fjórar sögurnar draga upp mynd af upplifun Vestmannaeyinga í Heimaeyjargosinu 1973. Þær segja frá atburðunum í gegnum augun á persónum eins og Elínu og Gunnari og sýna hvernig gosið hafði áhrif bæði á meðan því stóð og í kjölfarið.

Styrkurinn gerði einnig kleift að þýða sögurnar yfir á íslensku, sem Áslaug sá um, svo við getum deilt þeim með Vestmannaeyingum. Við hlökkum til að kynna þessar sögur og vonum að þær veki áhuga og samtal um þennan merkilega þátt í sögu eyjanna

Heimþrá til Heimaeyjar

Hverjir eru á bakvið verkefnið 

Manon-Steffan-Ros-main-image.jpg
Rhian.jpg
Aslaug.jpg

Manon Steffan Ros
höfundur texta

Rhian Hedd Meara
Gagnaöflun

Áslaug Hersteinsdóttir
Þýddi yfir á íslensku

slide_355_edited.jpg

Túnið

Ég man nákvæmlega lyktina af þessu túni.

Þú fattar ekki að tún hafi sína eigin sérstöku lykt þar til lyktin breytist og hverfur. Eins og lyktin af hári látinnar móður þinnar eða óþefurinn í loftinu á klósettinu í gamla skólanum þínum. Og þetta tún, túnið okkar, lyktaði af grasi og mykju og villtum blómum, en líka örlítið af sjó og þara og fersku lofti.

Túnið okkar, sem var auðvitað ekki túnið okkar - heldur einhvers annars. Sáið til. Við þurfum nefnilega að vorkenna þeim sem halda að þeir geti raunverulega átt nokkurn skapaðan hluta af skel jarðar. Það eina sem við getum gert er að vera til, á jörðinni, um stund. Eins og ég gerði. Eins og við gerðum, saman. Buxurnar verðandi rakar á rassinum eftir að hafa setið tímunum saman, efnið í gallabuxunum hægt og bítandi drekkandi í sig vætuna í grasinu.

Það var á þessu túni sem þú fyrst réttir út höndina og vafðir fingrum þínum um mína.

Það var á þessu túni sem ég fattaði að þú líka hafðir þína eigin sérstöku lykt. Sápu og mosa en líka keim af einhverju örlítið hættulegu, eins og eldi.

Það var á þessu túni sem þú sagðir að ég hefði fallega söngrödd, og ég sagði þér frá bókunum sem ég var að lesa, og við sátum og lágum og töluðum og hlógum, söfnuðum dögum, kossum og leyndarmálum og freknum. Og það var á þessu túni sem við vorum, seinna en við áttum að vera, þú að tína gras úr hárinu á mér, þegar jörðin undir fótum okkar fór að rumska eins og við hefðum vakið hana upp með því að elskast ekki nógu hljótt. Við hristumst hönd í hönd og ég gat einhvern veginn ekki fundið fyrir þyngdaraflinu.

,,Jarðskjálfti,“ sagðir þú. ,,Þetta er allt í lagi, þetta er allt í lagi“. Og stór hönd þín og fingur voru það eina trausta og stöðuga á jörðinni.

Ég sá þig ekki í langan tíma á eftir, því við brutum eitthvað inni í jörðinni, með einhverjum hætti, eitthvað sem spúði eldi og reyk og brennisteini. Við urðum að fara - mín fjölskylda á einn stað og þín á annan - og þegar kom að því að snúa aftur til eyjunnar í hús sem lyktuðu af múrverki og málningu og tómleika, var túnið okkar horfið. Það var orðið að fjalli, öri, hrúðri á yfirborði jarðar til að minna mig á allt sem ég hafði misst. Ég vissi ekki að jörðin gæti þetta – skapað fjall í skapofsa, skapað brekkur og dældir og oddhvassar sprungur þar sem ekkert hafði verið nema elskendur á engi roðnandi undir sólinni og snertingu handa hvors annars.

slide_355_edited.jpg

Húsgögn

Að bjarga hlutum úr húsi var karlmannsverk. Gunnar vissi upp á hár hvernig hann ætti að vera karlmaður. Í bernsku hafði hann hljóðlega fylgst með föður sínum, fylgst með uppteknum, vandvirkum höndum hans sem var eini raunverulegi lærdómur sem hann bjó yfir. Konur sköpuðu, og menn björguðu. Héldu höndunum uppteknum svo allt væri í lagi. En þegar jörðin fór að hristast undir grunni húss þeirra sem var vandlega byggt á raunhæfum lánskjörum gat Gunnar ekki á nokkurn hátt notað hendurnar til að vinna sig út úr því sem vofði yfir. Og Elín sem yfirgaf heimili þeirra með litlu gimsteina-bláu ferðatöskuna í annarri hendinni, þá sem hún hafði keypt sérstaklega fyrir brúðkaupsferðina. En í hinni hendinni fuglabúr sem sveiflaðist fram og til baka eins og hljóðlát viðvörunarbjalla hulin fallegu rúmábreiðunni úr gestaherberginu. Jafnvel á meðan jörðin reif sjálfa sig í glóandi tætlur undir þeim, hreyfði Elín sig létt á fæti, tignarleg, eins og lítill fugl.

Gunnar var einn þeirra sem sneri aftur til eyjunnar með hinum mönnunum – í reykmettuðum björgunarleiðangri, til að sjá hverju úr húsunum væri hægt að bjarga. Hvítkalkað húsið þeirra var nú svart, einhverskonar ómögulegur flauelsmjúkur svartur litur, eins og hrafnsvængur. Hann var næstum því búinn að

ganga fram hjá húsinu sínu, í leit að stað sem virtist kunnuglegur. Hann skoðaði húsið með lampa, leitandi að hlutum sem voru Elínu dýrmætastir – plötuspilaranum og silkikjólunum sem hún hafði klæðst þegar hún hafði búið á bjartari stað en þessum. Ljósmyndunum úr brúðkaupi þeirra og huggulegum stafla af gömlum ástarbréfum sem voru bundin saman með gulum borða.

Hann var um borð í skipi á leiðinni til baka til meginlandsins þegar hann mundi eftir hlutum sem hann sjálfur hefði viljað bjarga úr húsinu. Hefði hann tekið tillit til eigin óska líkt og óska eiginkonu sinnar - verkfærin í bílskúrnum, bækurnar fimm á náttborðinu. Og stól föður hans. Hann áttaði sig á því að hann myndi aldrei sjá stólinn aftur – þann sem faðir hans hafði smíðað, þögull kennandi Gunnari á meðan hann sneri og slípaði fölviðinn og lakkaði vandlega. Stólinn sem var sterkur og hljóður eins og faðir hans, í setustofunni á æskuheimilinu hans, stólinn sem fylgdi honum á nýja heimilið þegar hann giftist Elínu. Húsgagnið sem var eins massíft og sterkt eins og hún var fíngerð og viðkvæm.

slide_355_edited.jpg

Hrafninn

Það var fugl. Hún steypir sér í minningar mínar, stundum óvænt. Þegar ég er að reyna að muna hvernig hlutirnir voru áður fyrr, mikilvægir hlutir, þá birtist hún mér með svo miklum skýrleika, svo miklum litum, að það næstum hræðir mig. Ég reyni að muna nafnið á nágrannakonunni – þú veist –, þessari sem var alltaf með svuntuna, eiginkonu Jóhanns – eða þegar ég reyni að muna nákvæmlega hvernig mynstrið var á baðherbergisflísunum, þessum með blómunum… voru þær grænbláar eða blágrænar? Og fuglinn, hrafninn kemur til mín gegnum opinn glugga minninganna, lifandi, og skýst um eins og eldur í huga mér.

Ég var með tvo fugla í búrinu hjá glugganum í stofunni – turtildúfur, af öllum fuglum – í mjúkum litum, einhvern veginn virtust þeir báðir vera bæði góðlátlegir og heimskir. Þeir voru brúðkaupsgjöf frá Gunna, misheppnuð tilraun til að vera rómantískur, eitthvað sem að kona, venjuleg kona – myndi vilja. Ég var yfir mig hrifin af þeim í hálfan mánuð, áður en ég fattaði að þessi vandræðalega rómantík var í raun vandræðaleg kaldhæðni – tveir fuglar innikróaðir saman að eilífu, réttur þeirra til flugs tekin frá þeim að eilífu. Symbólisminn var það greinilegur að það var næstum því, næstum því, fyndið.

En fuglinn úti var hins vegar hrafn, svartar fjaðrir hennar virtust jafnvel enn dekkri í samanburði við væmnu rjómaís-litina á þessum innikróuðu. Augu hennar voru stingandi perlur, í sama lit og niðurdrepandi sólarlag, blágrá augu sem sáu meira en önnur augu.

Hrafninn fór að sitja um fyrir mér. Ég naut athygli hennar.

Sitjandi á grindverkinu í garðinum, litu augu hennar til gluggana, horfandi á mig strauja eða lesa eða elda eða gráta. Horfandi á mig stundum vera lata. Sjá nekt mína þegar ég steig upp úr baðkarinu, hallandi undir flatt þegar ég blótaði til hennar.

Farðu burtu! Öskraði ég á hana nokkrum sinnum, þreytt á þessum stöðugu njósnum – en ég skildi líka eftir brauðskorpur handa henni, og eplahýði, og ég leitaði til hennar þegar ég dró gluggatjöldin frá á morgnana, leitaði innan kassalaga útsýnis gluggans að því hvernig það svarta við hana virtist myrkva alla birtuna í kringum hana. Og hún færði mér steina, skildi eftir ljóta, afmyndaða svarta klumpa á gluggakistunni – litla, grófa steina sem höfðu verið hraun fyrir löngu síðan .

En þegar gaus var mér sagt að taka fuglana í búrinu með mér á meginlandið. En ekki hrafninn. Ekki vinkonu mína í glugganum með skýjuðu augun. Það er, kannski, hvernig hlutum er háttað – villtum fuglum er aldrei bjargað, en þeir þekkja að minnsta kosti tilfinninguna við að breiða út vængina.

slide_355_edited.jpg

Heima

Þau, koma í hundruðum til að sjá hvort þau geti ennþá fundið lykt af reyk og harmi á götunum og túnunum í kringum húsið mitt.

Til að stíga á jörð sem eitt sinn var hættuleg, svo framarlega sem hún sé örugg núna. Til að sjá hvað gerist þegar jörðin hóstar smá eldi úr iðrum sínum. Ég horfi stundum á þau þegar ég stend í röð að kaupa mjólk út í búð eða bíðandi eftir því að hundurinn geri stykkin sín. Sorgartúristar. Það er greinilega eitthvað svo dásamlega aðlaðandi við stað sem hefur upplifað slíkan missi.

Það hvernig þessi staður er tveir staðir í einu, tveir skammtar af eyju sem er sköpuð af þeim og okkur. Fyrir mig er þessi staður fullur af lífi, samastaður, heimili þar sem ég set föt á þvottasnúru, staður þar sem ég þarf að finna pípara til að laga bilaða kranann í þvottahúsinu, þar sem ég fer út að reykja fyrir aftan bílskúrinn eftir að hafa rifist við manninn, staður þar sem við förum svo í göngutúr, eftir að pirringurinn á milli okkar smám saman hjaðnar. Fyrir þau, staður þar sem svört askan dansar ennþá ósýnileg, ógnandi í andvaranum, þar sem sagan okkar er Hollywood söguþráður með Jake Gyllenhall í aðalhlutverki með dystópískt andlit og í hvítri ullarpeysu. En fyrir mig, heimili. Fyrir þau glæný Pompey, einu sinni var-staður, grafreitur. Þau sækja okkur heim og lúta höfði í virðingu, hljóðlega áður en þau halda aftur heim, eins og að þeirra hús séu ekki líka byggð á snúningskúlu, með iðrin bullsjóðandi af eldi.

1025geir.jpg

Upcoming Events

Dr. Rhian Hedd Meara, jarðvísindakona og félagsvísindarannsakandi frá Swansea University, tók þátt í Goslokahátíðinni 2025 í Vestmannaeyjum þar sem hún kynnti verkefni sem tengist áhrifum Heimeyjargossins 1973 á samfélagið í Heimaey.

Í kynningunni fjallaði hún um hvernig gosið hafði djúpstæð áhrif á íbúa eyjunnar og hvernig það mótaði rannsóknir hennar á tengslum náttúruhamfara og samfélagslegra breytinga.

41118228_10156062271128369_7433710626909716480_o.jpg

Isle of Fire

Isle of Fire myndaserían var gerð af landfræðingum og jarðvísindamönnum til að færa dramatíska sögu eldgosa inn í kennslustofur. Hún fjallar um Eldfellsgosið á Heimaey árið 1973 og tengir það við nútíma eldvirkni á Reykjanesskaga. Markmiðið var að hjálpa skólabörnum að skilja hvernig samfélög undirbúa sig fyrir, bregðast við og jafna sig eftir eldgos.

Myndirnar voru framleiddar af Time for Geography í samstarfi við háskóla og sérfræðinga, þar á meðal Dr. Rhian Hedd Meara. Þær sameina sögulegt myndefni, viðtöl við sérfræðinga og nútíma aðferðir í áhættustjórnun. Tilgangurinn var bæði fræðandi og hvetjandi: að sýna seiglu, vísindalega nýsköpun og mikilvægi landfræðinnar í því að vernda mannslíf.

hér til hliðar eru linkar á myndböndin

Ljósmynd Hilmar á Grundabrekku

© 2023 by 1973- Allir í bátana

1973 í bátana unnið í samstarfi með Sagnheimum

bottom of page