top of page

Ræða sem flutt var í Bústaðarkirkju 15. Janúar 2023

Íris Róbertsdóttir 

“Kæru kirkjugestir

Okkur er tamt að segja í Vestmannaeyjum – fyrir og eftir gos. Svo djúp og lifandi er minningin um eldgosið sem hófst fyrir réttum 50 árum, eða aðfararnótt 23. janúar 1973. Fimm þúsund og þrjú hundruð Eyjamenn þurftu að yfirgefa heimili sín sem mörg hver fóru undir ösku og eld. Þessa sögu þekkja allir Íslendingar og í Eyjum gerum við meira en að þekkja söguna – við lifðum hana – og hún er stór hluti af því að vera Vestmannaeyingur.

Þessi stærsti viðburður í rúmlega 1000 ára sögu Eyjanna, og í raun landsins alls, er hálfrar aldar gamall. Það eru því fyrir löngu komnar fram kynslóðir þar sem eldgosið er saga en ekki upplifun. Því er mikilvægt að við varðveitum minningar og heimildir frá þessum tíma.

Sögurnar eru margar og teygja sig víða um íslenskt samfélag – og til annarra ríkja líka.

Heimaeyjargosið er einn af þessum viðburðum sem aldrei gleymist þeim sem hafa aldur til að muna. Ég á sjálf fjölskyldusögu eins og svo margir aðrir Eyjamenn frá þessari nótt - og því sem við tók.

Mamma, Svanhildur Gísladóttir, var 23ja ára gömul, með mig eins árs gamla og komin sjö mánuði á leið með systur mína 22. janúar 1973. Hún og pabbi, Róbert Sigmundsson, voru fyrstu nóttina á nýju heimili í Viðey - á Vestmannabraut 30. Þau voru ný sofnuð þegar Hansína, systir mömmu, vakti þau og lét vita að eldgos væri hafið í austurbænum.

Mamma trúði henni nú tæplega sem von var. En þetta var raunin og við fjölskyldan, ég mamma og pabbi fórum niður á bryggju. Ég klæddi í úlpu og ullarsokka - og mamma tók með eina bleyju og pela. Mamma ætlaði bara að fara sutta stund og koma svo heim aftur, en það var ekki raunin. Við fórum með fiskibáti eins og stór hluti íbúa á Heimaey - og vorum við mæðgur mjög sjóveikar en vorum samt heppnar því við fengum koju.

Ferðin var erfið og mömmu hryllir alltaf við að rifa hana upp. Hún lætur þó alltaf fylgja með að Guð hafi verndað okkur og aðra Eyjamenn þessa nótt. Ég held að það sé mikið til í því.

Við fjölskyldan fengum ekki húsnæði fyrst í stað, en fengum svo loks íbúð á Laufásvegi þar sem Hrönn systir bættist í hópinn í mars 1973.

Mamma var og er mjög trúuð kona. Hún ræddi við sr. Karl Sigurbjörnsson, sem þá var prestur í Vestmannaeyjum, í byrjun júlí þegar tími var kominn til að skíra Hrönn. Sr. Karl lagði til að skírnin færi fram í fyrstu messu í Landakirkju eftir að gosi væri formlega lokið.

Það varð úr og við fjölskyldan flugum til eyja í júlí - með sr. Karli. Það var auðvitað allt svart, og það þurfti meira að segja að grafa göng í gegnum vikurinn til að komast inn í kirkjuna.

Mig langar að vitna í orð mömmu, í viðtali sem Guðrún Erlingsdóttir tók við hana og birtist í Morgunblaðinu 2018, sem lýsa þessar sérstöku og fallegu stundu vel:

„Þegar við komum inn í anddyrið var það fullt af stígvélum og kirkjan troðin af fólki. Aðallega karlmönnum í vinnufötum sem unnu við hreinsunarstörf og uppbyggingu. Stígvél voru það eina sem dugði sem skótau á þessum tíma og þeir vildu ekki fara inn í kirkjuna í þeim,“ mamma verður verður þögul um stund.

„Tilfinningin var sterk þegar ég gekk inn með barnið í hvítum skírnarkjól. Niður kinnar karlmannanna í köflóttum vinnuskyrtum á sokkaleistunum runnu tár. Þó allt væri svart í bænum náðu geislar sólarinnar að skína inn um gluggana og barnið í hvítum skírnarkjól var eins og tákn um upprisu, nýtt upphaf. Karl sagði að þetta hefði verið merkileg athöfn og ég gleymi henni aldrei,“ segir mamma .

Hrönn systir var því fyrsta barnið sem skírt var í Landakirkju eftir gos - í fyrstu messunni. Móðir mín talar enn um þessa athöfn og er svo þakklát sr. Karli. Myndin, sem er tekin fyrir utan Landakirkju þennan dag með Barnaskólann í bakgrunn, segir meira en þúsund orð.

Ég ber ómælda virðingu fyrir því fólki sem tókst á við þessi ósköp - og er þeim líka svo þakklát sem komu aftur heim og byggðu upp okkar yndislegu Eyju. Við heiðrum verk þeirra og minningu best með því að halda ótrauð áfram því uppbyggingarstarfi sem þau lögðu grunninn að. Á þessu ári verður þessara merku tímamóta minnst með margvíslegum hætti og alltaf með virðingu og þakklæti fyrir að ekki fór verr.

Takk fyrir þessa stund.”

325955528_3367796510203684_7031705037229740200_n.jpg

Við Landakirkju

Myndin er ú fjölskyldu safni Írisar og er tekin fyrir utan Landakirkju á skýrnar degi Hrannar 

Eldheimar

Her er stutt video þar sem Svanhildur móðir Írisar ryfjar upp gostímann 

bottom of page