top of page
281570481_3189778414611495_1421607404516963697_n.jpg

Eyþór Harðarson

Eyþór fór ásamt fjölskyldu sinni með Hrönninni upp á land

  • Facebook
  • Twitter
  • LinkedIn
  • Instagram

Saga Eyþórs

Ein mynd segir meira en 1000 orð - nú hef ég enga mynd en í stað þess rúm 1000 orð til að segja mína sögu um gosnóttina og framhaldið af henni.

Mánudagskvöldið 22. janúar 1973 var venjulegt kvöld í Eyjum þar sem móðir mín fór að spila brids með þremur vinkonum sínum sem voru allar systur úr Borgarhól. Þær spiluðu þetta kvöld í austurbænum. Af og til kom titringur í húsið og þær furðuðu sig á því hvað olíufírinn titraði mikið um kvöldið. En ekkert til að tala um. Þegar vinkonurnar voru búnar að spila nóg, rúmlega eitt um nóttina var kominn tími til að fara í háttinn.

Mamma var á fjölskyldubílnum að keyra vinkonurnar heim þegar þær sjá tvo kappa sem virtust vera að horfa til austurs og fylgjast með einhverju. Þegar leið lá upp Kirkjuveginn er greinilegur bjarmi úr austri og engu líkara en stórbruni ætti sér stað í austurbænum eða út á Kirkjubæjum.

Þær keyra austur Birkihlíð og þegar ofar í bæinn var komið sást að jörðin var að rifna norðaustur úr Helgafelli. Það var bara að klára að skutla vinkonum heim og drífa sig á Kirkjuveginn þar sem við bjuggum. Mamma byrjaði á að vekja pabba sem var í landi, vegna smá vélarupptektar í Hrönn VE sem pabbi gerði út ásamt öðrum.

Þegar ljóst var að stórviðburður var í gangi vakti mamma okkur systkinin. Ég var á tíunda ári, Alda og Hrönn á 12. ári og Katrín rúmlega þriggja ára. Stöðuna var ómögulegt að meta á okkar heimili. Mamma og pabbi ákveða að við skildum fara í bíltúr og reyna að átta okkur á því hvað væri að gerast. Á þessum tímapunkti var brunalúðurinn komin í gang til að vekja íbúana. Við mættum lögreglubíl með blikkandi ljósin á Kirkjuveginum.

Í minningunni fórum við ekkert austar en að Helgafellsbrautinni til að skoða gosið. Þetta var það óljóst að engin ástæða var til að fara nær og ekkert annað en rauður bjarminn sýnilegur úr bílnum. Eftir nokkra stund var orðið ljóst væntanlega samkvæmt útvarpinu í bílnum að fólk var hvatt til að fara á bryggjurnar og koma sér í bátana.

Dönskupróf í uppnámi

Sem betur fer þá var megnið af bátunum í landi vegna brælu daginn áður og margir klárir til að ferja Eyjabúa til Þorlákshafnar. Mér er minnistætt hvað okkur systkinum sem voru komin á skólaaldur fannst þetta vera vafasöm skilaboð í ljósi þess að við ættum að mæta í skólann næsta morgun. Það sem meira var, það var dönskupróf í vændum hjá tvíburunum. Þegar ljóst var að ekkert annað var í stöðunni en að fara niður á bryggju og um borð í Hrönnina náði gráturinn hámarki hjá tvíburunum. Sáu fyrir sér falleinkunn í umræddu dönskuprófi.

Þegar málin fóru að skýrast betur á bryggjunni og fyrstu skipin að fara frá bryggju hlaðin fólki, vorum við nokkur komin um borð í Hrönn VE sem var ekki með gangfæra vélina vegna viðgerðar.

 

Í togi til Þorlákshafnar

Það varð því að fá annað skip til að draga okkur frá Eyjum og eðlilega eingöngu fjölskyldur áhafnarinnar um borð. Það var Gullbergið sem dró okkur út úr höfninni og það er kristaltær minningin þegar við stóðum í brúnni á leiðinni út úr höfninni og drunurnar frá gosinu urðu enn öflugri og hamfarirnar sýnilegar. Við stóðum þarna agndofa og það var eftirminnilegt. Ég gerði mér þarna fyrst grein fyrir því hve alvarlegur atburður var í gangi þega mamma bað Guð að hjálpa okkur. Það hafði ég ekki heyrt áður frá henni og gerði mér ljóst að stórhættulegur atburður var í gangi á Heimaey.

Sjóferðin gekk ekkert sérstaklega vel. Það slitnaði taugin milli skipanna eftir dágóða stund. Þá kom annað skip, Grindvíkingur að mig minnir og tók við og dró okkur til Þórlákshafnar. Þangað vorum við komin um kl. 14.00 eftir hádegi, líklega síðust skipa með fólk.

Sjö í 60 fm íbúð

Ég man eftir rútuferð til borgarinnar sem endaði við Sjómannaskólann. Þar var móttaka fólks og boðið uppá kaffi og meðlæti. Í framhaldi förum við heim til bróður mömmu sem bjó í Hlíðunum og þar kom í ljós að sonurinn var ekki í neinum sokkum. Var bara að fara í smá bíltúr í Eyjum um nóttina. Eftir fyrstu heimsóknina hjá bróður mömmu var niðurstaðan að fyrst um sinn myndum við fá gistingu hjá afa, sem var bóndi nýfluttur í borgina.

Það var 60 fm íbúð í Fellsmúla 2 í Reykjavík. Það var heimili okkar fram á sumarið þar sem við, sex manna fjölskyldan héldum heimili með afa. Auðvitað var ekki nokkur leið að meta stöðuna fyrstu dagana, en þróunin var alltaf í þá átt að við værum ekki að fara heim næstu daga eins og maður vonaði í byrjun.

 

 

Vinir dreifðir um alla borg

Ég byrjaði eftir nokkra daga í Álftamýrarskóla og var í þriðja bekk út skólaárið. Vinir mínir úr Eyjum voru dreifðir um alla borg og það var ekkert í boði að hitta þá nema með töluverðu brölti. Það lærðist smá saman að taka strætó þegar leið á veturinn og heimsækja gömlu vinina. En að öðru leiti var ekkert annað en að fylgjast með Eyjapistli og stillimyndinni í sjónvarpinu sem var útsending af Klifinu sem sýndi eldgosið frá því sjónarhorni.

Allt miðaðist við að reikna út hvenær við gætum aftur flutt heim. Svo liðu mánuðirnir og ljóst að flutningur heim væri ekki á döfinni fyrst um sinn. Við fengum hálfklárað raðhús í Logalandi á leigu um sumarið og vorum þar fram á haustið 1973 er við fluttum í svokallaða Viðlagasjóðshúsabyggð í Kópavogi, nánar tiltekið Reynigrund.

 

Kergja í kennurum

 

Þarna var fyrsti vísir að hverfi neðan Nýbýlavegar. Þá lá leiðin í Kópavogsskóla með nýjum skólafélögum í fjórða bekk. Það var gott að flytja í Kópavoginn og hitta þar marga krakka á svipuðum aldri sem fluttu í Viðlagasjóðshúsin. Ég held að það hafi mildað heimþrána. En skólaárið í Kópavogi gekk ágætlega og á ég ekkert annað en fínar minningar frá þeim skóla þó svo ég hafi orðið vitni að ákveðinni kergju í garð okkar Eyjakrakka af hálfu kennara sem virtust vera með ákveðnar hugmyndir um að Eyjamenn væru að fá of mikið út úr eldgosinu bótalega séð. Þennan vetur var erfiðast að horfa á þá staðreynd að það væri ekki sjálfsagt að fjölskyldan myndi flytja aftur til Eyja.

 

Gott að komast í beddann sinn

Pabbi var sjómaður og sá ekkert annað í stöðunni annað en að flytja aftur heim og sinna útgerðinni. Mamma aftur á móti var ekki á því að framtíðin væri í Eyjum fyrir okkur. Mamma hafði flutt til Eyja með Pabba 1959 og hófu þau búskap þar fjarri fjölskyldum sínum. Það var skiljanlegt að sjómannskonan væri ekki eins áköf í að flytja heim í óvissuna strax að loknu gosi. En sem betur fer þá varð sú ákvörðun ofan á að flytja heim sumarið 1974 í sama hús og við bjuggum í þegar gosið byrjaði. Góð tilfinning fyrir 11 ára Eyjapeyja að koma aftur í sama herbergið og sama beddann sem hann yfirgaf um gosnóttina, sokkalaus, einu og hálfi ári áður.

Hafa samband

erum að safna sögum og skrá þá sem voru í Eyjum þegar gosið hófst í Heimaey 1973

bottom of page